Erlent

Arabar reiðir vegna nýrra þjóðríkislaga

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Umdeilt frumvarp um að Ísrael skuli verða þjóðríki Gyðinga var í gær samþykkt á þinginu þar í landi. Löggjöfin kveður á um að Gyðingar hafi sjálfsákvörðunarrétt í landinu og eykur vægi hebresku á kostnað arabísku. Til þessa hafa hebreska og arabíska verið á sama stalli sem opinber tungumál en nú verður arabíska eiginlegt annað tungumál ríkisins.

Þingmenn af arabískum uppruna brugðust illa við samþykkt frumvarpsins og samkvæmt BBC veifaði einn þeirra svörtum fána á meðan aðrir rifu eintök sín í tætlur. Um fimmtungur ísraelskra ríkisborgara er fyrst og fremst arabískumælandi og af arabískum uppruna. Þar á meðal eru fjölmargir Palestínumenn.

Benjamín Netanjahú forsætisráðherra fagnaði samþykktinni og sagði um sögulega stund að ræða. „Ísrael er þjóðríki Gyðinga, og virðir réttindi allra ríkisborgara,“ sagði ráðherrann til að mynda.

Saeb Erekat, formaður samninganefndar Palestínumanna, fordæmdi hins vegar löggjöfina. „Þessi fordómafullu lög munu grafa undan réttindum okkar.“

Í umfjöllun BBC um málið kom fram að hluti ísraelskra stjórnmálamanna hefði áhyggjur af því að hætta væri á að sú hugsjón að Ísrael sé ríki Gyðinga dæi út. Áhyggjur af hárri fæðingartíðni ísraelskra Araba og fjölmörgu öðru hefðu því orðið til þess að þessi umdeilda löggjöf var samþykkt.

Netanjahú hefur ítrekað farið fram á að Palestínumenn viðurkenni Ísrael sem ríki Gyðinga í hverjum þeim friðarsamningi sem kann að vera gerður. Því hefur Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, ætíð hafnað. þea




Fleiri fréttir

Sjá meira


×