Erlent

Stillt til friðar á Gasa

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá mótmælum við landamæri Ísrael og Palestínu í dag.
Frá mótmælum við landamæri Ísrael og Palestínu í dag. Vísir/EPA
Ísrael og Hamas hafa samið um vopnahlé á Gasaströndinni, samkvæmt talsmanni Hamas. Hann segir Egypta og Sameinuðu þjóðirnar hafa komið að það því að stilla til friðar eftir að ísraelskur hermaður var skotinn til bana af leyniskyttu. Ísraelsher svaraði með fjölda árása. Reuters ræddi við íbúa sem segja allt vera með kyrrum kjörum á Gasa.

Ísraelsher hefur gert loftárásir á minnst 60 skotmörk á Gasa í kjölfarið og fellt minnst fjóra Palestínumenn. Þrír þeirra eru sagðir vera Hamas-liðar og sá fjórði mun vera almennur borgari og var hann skotinn á mótmælum við landamærin. 120 Palestínumenn eru sagðir vera særðir.

Þá hefur eldflaugum verið skotið að Ísrael og voru minnst tvær skotnar niður. Vitað er að ein til viðbótar lenti á akri og hefur engan sakað.

Nickolay Mladenov, sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna varðandi Miðausturlönd, hvatti báðar fylkingar í dag til þess að „stíga frá brúninni“, eins og hann orðaði það. Ekki mætti koma til annars stríðs á milli IDF og Hamas.



Áðurnefndur hermaður er fyrsti Ísraelsmaðurinn til að falla frá 30. mars þegar umfangsmikil mótmæli hófust við landamæri Palestínu og Ísrael. Síðan þá hafa minnst 149 Palestínumenn fallið, þar af voru flestir skotnir til bana á meðan á mótmælum stóð.

Í síðustu viku sagði Ísraelsher að umfangsmiklar loftárásir hefðu verið gerðar á Gasa og það hafi verið viðbrögð við rúmlega 200 eldflauga- og sprengjuvörpuskotum að Ísrael. Þar að auki hafa Palestínumenn verið að senda loftdreka, hlaðna eldfimum efnum, yfir landamærin. Heilu akrarnir hafa orðið eldi að bráð.

Uppfært 23:30 með tilliti til vopnahlésins.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×