Innlent

Ástralir á­nægðastir ferða­manna með Ís­lands­dvölina

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ferðamenn við Geysi í Haukadal fyrr í sumar.
Ferðamenn við Geysi í Haukadal fyrr í sumar. vísir/vilhelm
Ferðamannapúlsinn í júnímánuði mældist hæstur meðal Ástrala eða 89,2 stig af 100 stigum mögulegum. Þar á eftir komu Kanadabúar með 85,4 stig en púlsinn mælist lægstur á meðal breskra ferðamanna eða 80,6 stig.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Gallup sem kannar Ferðamannapúlsinn. Í heildina mældist púlsinn 83,4 stig í júní sem er 1,7 stigum hærra en á sama tíma í fyrra.

„Ferðamannapúlsinn er metinn út frá fimm undirþáttum: heildaránægju með ferðina, líkum á að mæla með Íslandi sem áfangastað, skynjun á gestrisni Íslendinga, hvort að ferðin hafi uppfyllt væntingar og hvort að ferðin hafi verið peninganna virði. Líkur á meðmælum er sá þáttur sem mældist hæstur í júní, eða 89,2 stig af 100 mögulegum á mat ferðamanna á hvort ferðin hafi verið peninganna virði var sá þáttur sem mældist lægstur, eða 78,2 stig af 100 mögulegum,“ segir í tilkynningu Gallup.

Samhliða því sem Ferðamannapúlsinn er mældur er hinum ýmsu gögnum um venjur ferðamanna hér á landi safnað.

Eitt af því sem breytist yfir sumarmánuðina er að ferðamenn dvelja lengur á landinu.

„Til að mynda jókst hlutfall ferðamanna sem dvöldu í fimm nætur eða lengur úr 55% í 65% milli mánaða, en þess má geta að ferðamenn sem gista í fimm nætur eða lengur eru almennt ánægðari heldur en þeir sem gista í fjórar nætur eða skemur,“ segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir

Ferðaþjónustan er komin að þolmörkum

Hörður Gunnarsson, framkvæmdastjóri Iceland Travel, segir að laun séu komin að þolmörkum í ferðaþjónustu. Ferðaskipuleggjendur hafa margir hverjir ákveðið að hvíla Ísland á meðan gengið er jafn sterkt og raun ber vitni. Aukinn áhugi er á Íslandi frá NorðurAmeríku og Asíu en þar er sumarfrí styttra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×