Innlent

Virkni Öræfajökuls óvenjuleg miðað við sögu eldstöðvarinnar

Birgir Olgeirsson og Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifa
Páll Einarsson jarðfræðingur.
Páll Einarsson jarðfræðingur. Vísir
Öræfajökull er að skipta um skap og sýnir af sér dæmigerða hegðun fyrir eldfjall sem er að búa sig undir eldgos. Þetta segir Páll Einarsson jarðfræðingur um virknina í Öræfajökli sem hann segir óvenjulega miðað við sögu eldstöðvarinnar.

Fundað var um virknina á Veðurstofu Íslands í gær vegna þess að viss merki eru um að þensla sé að aukast í Öræfajökli. Er til skoðunar hvort ástæða sé til að hækka viðbúnaðarstig við jökulinn upp í gult.

„Það sem er í gangi er framhald á atburðarás sem byrjaði fyrst haustið 2016. Þó tókum við eftir því að það var að aukast jarðskjálftavirkni í Öræfajökli. Það hafa verið skjálftamælingar í Öræfasveit frá 1976. Samkvæmt þeim hefur eldfjallið verið með rólegra móti og ekki neitt óeðlilegt á ferðinni þar. Þegar fór að líða á haustið 2016 fóru jarðskjálftar að vera tíðari og síðan þá hefur þetta ástand verið viðvarandi. Ef við setjum í samhengi við aðrar eldstöðvar þá er þessi atburðarás mjög hæg. Þetta er ekki bráðabreyting sem er í gangi, þetta er bara ótvírætt merki um að eldfjallið er að skipta um skap og dæmigerð hegðun fyrir eldfjall sem er að búa sig undir eldgos,“ segir Páll Einarsson.

Öræfajökull er stærsta eldstöð Íslands í rúmmáli talið og hefur gosið tvisvar á sögulegum tímum, annars vegar árið 1362 og hins vegar árið 1727.

„Þetta er ekki eitt af okkar sprækustu eldfjöllum. Reyndar var annað af þessum gosum mjög stórt og eitt af stærstu gosum á sögulegum tímum,“ segir Páll.

Hann segir þrjátíu virk eldstöðvarkerfi á Íslandi, þar af fjögur sem eru í sama ham og Öræfajökull en það eru Bárðarbunga, Grímsvötn og Hekla.

Viðbúnaðarstigin fyrir eldfjöll eru fjögur, grænt, gult, appelsínugult og rautt.

Núverandi ástand fyrir Öræfajökul er grænt, það er virk eldstöð sem sýnir engar vísbendingar um að gos sé væntanlegt.

Gult viðbúnaðarstig er þegar eldstöð sýnir merki um virkni umfram venjulegt ástand.

Appelsínugult stig er þegar eldstöðin sýnir aukna virkni og vaxandi líkur á eldgosi.

Rautt stig er þegar eldgos er yfirvofandi eða hafið og líklegt að aska berist upp í lofthjúpinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×