Vitni segjast hafa séð sjúkraflutningamenn bera drengina út úr hellinum á börum. Björgunarmenn hafa ekki viljað tjá sig við blaðamenn þegar eftir því hefur verið leitað.

Þeir verða svo fluttir á sjúkrahús í nágrenninu þar sem hinir drengirnir átta hafa dvalið síðustu sólarhringa.
Sjá einnig: Nítján kafarar komnir í hellinn
Greint var frá því í nótt að þeir væru allir við hestaheilsu, að frátöldum tveimur drengjum sem nældu sér í minniháttar sýkingu í lungun.
Björgunaraðgerð dagsins hófst klukkan 02:08 í nótt að íslenskum tíma en gert er ráð fyrir því að hún muni taka lengri tíma en fyrri aðgerðir. Er það ekki síst vegna þess að í dag verður fimm einstaklingum bjargað úr hellinum, samanborið við fjóra í fyrri aðgerðum. Alls voru 19 kafarar sendir ofan í hellinn í morgun.
Eins og fram hefur komið fylgja tveir kafarar hverjum dreng út úr hellinum. Hinir kafarnir níu, sem ekki munu aðstoða drengi eða þjálfarann, verða síðastir út úr hellinum.
Fréttin verður uppfærð eftir sem frekari fregnir berast frá hellinum