Stjórnendur Kepler hafa fylgst grannt með eldsneytisbirgðum sjónaukans undanfarið. Búist er við því að þær klárist á næstu mánuðum. Þeir ákváðu að setja sjónaukann í dvala á meðan þeir ná í gögn sem hann hefur safnað í síðasta verkefni sínu, að því er segir í frétt á vef NASA.
Kepler verður vakinn af værum blundi 2. ágúst og loftneti sjónaukans beint að jörðinni til að senda gögnin heim. Gangi allt að óskum hefur Kepler nýtt rannsóknaverkefni 6. ágúst þangað til eldsneytið þrýtur endanlega. Forgangsmál er hins vegar að koma gögnunum sem þegar hefur verið safnað til skila áður.
The fuel is running very low on the spacecraft, and we're pausing observations so we can download some valuable science data. Learn more: https://t.co/B0zxzro5or pic.twitter.com/c1LKOQPTbC
— NASA Kepler and K2 (@NASAKepler) July 6, 2018
Leiðangurinn hefur ítrekað verið framlengdur en hann átti upphaflega að standa yfir í þrjú og hálft ár. Endist eldsneytið hefur Kepler sitt átjánda athuganaverkefni í næsta mánuði.
Hugvit verkfræðinga leiðangursins komu í veg fyrir að honum lyki fyrir fimm árum. Þá höfðu tvö hjól sem halda sjónaukanum stöðugum bilað. Án þeirra hefði verið útilokað fyrir sjónaukann að halda áfram athugununum sem krefjast gríðarlegrar nákvæmni.
Verkfræðingunum hugkvæmdist að nota þrýsting frá geislum sólarinnar á sólarrafhlöður sjónaukans til þess að halda honum stöðugum.