Félagasamtök í Níkaragva segja að 38 manns hafi fallið á sunnudag. Dagurinn sé sá blóðugasti frá því að mótmæli gegn ríkisstjórn Daníels Ortega hófust í apríl. Af þeim var 31 mótmælandi, fjórir lögreglumenn og þrír stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar.
Breska ríkisútvarpið BBC hefur þetta eftir mannréttindasamtökunum Níkaragvönsku mannréttindamiðstöðinni Cenidh. Átök á milli mótmælenda og öryggissveita hafa einkennt mótmælin og hefur fjöldi fólks látið lífið. Alls er talið að um 300 manns hafi fallið í mótmælum fram að þessu.
Fólkið féll á þremur stöðum á sunnudag, flestir í bæjunum Diriamba og Jinotepe, þegar lögreglan og stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar reyndu að ryðja burt vegartálmum sem mótmælendurnir settu upp.
Mótmælin gegn ríkisstjórn Ortega hófust eftir að ríkisstjórn hans tilkynnti um breytingar á almannatryggingakerfi landsins um miðjan apríl. Helsta krafa mótmælendanna er að Ortega segi af sér en hann hefur verið sakaður um spillingu og einræðistilburði.
