Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði það ólíklegt að Bretar fengju þann viðskiptasamning við Bandaríkin sem þeir væntu ef Brexit-samningar Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, verða ofan á. Um þá áætlun hefur verið viðhaft hugtakið „mjúkt“ Brexit.
Þetta sagði forsetinn í samtali við breska götublaðið The Sun og bætti við að áætlun May myndi gera út um verslunarsamninginn. Trump sagðist hafa ráðlagt May hvernig hún ætti að haga Brexit-samningum en hann hafi greinilega talað fyrir daufum eyrum.
Trump er þessa dagana staddur á Bretlandseyjum í sinni fyrstu opinberu heimsókn sem forseti Bandaríkjanna. Á fundi þjóðarleiðtoganna hefur May unnið að því að ná fríverslunarsamningi við Bandaríkin. Hún hélt því fram að úrsögn Breta úr Evrópusambandinu væri tækifæri til að auka hagvöxt bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum.
Trump sagði að uppkastið að núverandi Brexit-samningum væri ekki það sem kjósendur kölluðu eftir í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Brexit árið 2016. Áður hefur Trump sagt að Boris Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands, yrði frábær forsætisráðherra en að May væri indælis manneskja.
Óreiðuástand hefur verið uppi í breskum stjórnmálum eftir að utanríkisráðherra og ráðherra útgöngumála sögðu af sér í vikunni. Fyrir helgi fullyrti May að ríkisstjórnin hefði komist að langþráðu samkomulagi um hvernig ætti að haga útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.
Ráðherrarnir sem sögðu af sér, David Davis og Boris Johnson, vildu að May tæki harðari afstöðu í málefnum Brexit en þrátt fyrir það hyggst May ætla haga Brexit-samningum samkvæmt sinni sannfæringu.
Erlent
Trump segir May hafa gert út um fríverslunarsamning með „mjúka“ Brexit
Tengdar fréttir
Boris Johnson segir af sér
Boris Johnson hefur sagt af sér sem utanríkisráðherra Bretlands.
Jeremy Hunt nýr utanríkisráðherra Bretlands
Mitt í óreiðuástandinu sem er uppi í breskum stjórnmálum eftir að utanríkisráðherra og brexitmálaráðherra sögðu af sér í dag var Jeremy Hunt, fyrrverandi heilbriðisráðherra í ríkisstjórn Thereseu May, skipaður nýr utanríkisráðherra Bretlands.