Innlent

Nýr skólastjóri þarf að lægja öldurnar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Rúmlega 200 manns skrifuðu undir áskorun þar sem kallað var eftir viðbrögðum vegna stöðu mála í Breiðholtsskóla.
Rúmlega 200 manns skrifuðu undir áskorun þar sem kallað var eftir viðbrögðum vegna stöðu mála í Breiðholtsskóla. VÍSIR/ERNIR
Ásta Bjarney Elíasdóttir hefur verið ráðin skólastjóri Breiðholtsskóla. Hún tekur við starfinu af Jónínu Ágústsdóttur. Ráðning Ástu kemur í kjölfar mikillar óánægju hóps foreldra og skólastjórnenda á síðustu misserum með starfsandann í skólanum. Ítrekað hefur verið greint frá ósættinu sem er sagt hafa bitnað á skólastarfi Breiðholtsskóla svo mánuðum skiptir.

Bæði kennarar og tugir nemenda hafa hætt í skólanum sökum óánægjunnar. Í kjölfar undirskriftasöfnunar þar sem nemendur og foreldrar þeirra kölluðu eftir viðbrögðum frá borgaryfirvöldum ákvað skóla- og frístundasvið borgarinnar að bregðast við. Ætla má að ráðning Ástu sé liður í þeim viðbrögðum.

Sjá einnig: Krakkar og kennarar streyma úr Breið­holts­skóla vegna óróa

Á vef Reykjavíkurborgar segir að Ásta hafi lokið B.Ed. í grunnskólakennarafræðum frá Kennaraháskóla Íslands, hún sé með diplómu í stjórnun frá Kennaraháskóla Íslands og M.Ed. gráðu í uppeldis- og menntunarfræði með áherslu á stjórnunarfræði menntastofnana frá HÍ.

Hún hefur starfað sem umsjónarkennari í sjö ár, sem deildarstjóri í tvö ár, sem aðstoðarskólastjóri í sjö ár og nú síðast sem skólastjóri Húsaskóla frá 2012.

Á vef borgarinnar kemur jafnframt fram að Birna Sif Bjarnadóttir hafi verið ráðin sem skólastjóri Ölduselsskóla. Birna Sif hefur lokið M.Ed. gráðu í uppeldis- og menntunarfræði með áherslu á stjórnunarfræði menntastofnana frá HÍ. Birna Sif hefur starfað sem grunnskólakennari í 10 ár, sem deildarstjóri í eitt ár og sem aðstoðarskólastjóri Breiðholtsskóla í eitt ár, þar sem hún leysti einnig skólastjóra af um lengri og skemmri tíma.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×