Erlent

Borgarísjaki ógnar bæjarbúum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Um tröllvaxinn borgarísjaka er að ræða, eins og samanburður við þorpið ber með sér.
Um tröllvaxinn borgarísjaka er að ræða, eins og samanburður við þorpið ber með sér. Skjáskot
Stærðarinnar borgarísjaki hefur sett svip sinn á bæjarlífið í grænlenska þorpinu Innaarsui. Bæjarbúarnir 150 óttast að stærðarinnar klumpar kunni að brotna úr ísjakanum og valda flóðbylgju sem fært gæti bæinn á bólakaf.

Þrátt fyrir að ísjakinn sé tignarlegur að sjá segir oddviti bæjarins að hann sé hættulega nálægt landi. Ef svo kynni að fara að hann myndi brotna gæti það orðið til þess að fólk sem býr við ströndina þurfi að forða sér. Þar að auki stendur rafmagnsveita bæjarins við sjávarsíðuna og segist hann vart vilja hugsa þá hugsun til enda, fari svo að það flæði inn í rafmangsdreifikerfið.

Vel er fylgst með ástandinu og er búið að gera rýmingaráætlun fyrir Innaarsui. Þá hafa bæjarbúar sem búa næst ísjakanum verið hvattir til að finna sér gististað ofar í bænum af ótta við flóðbylgjur. Fyrrnefndur oddviti kallar því eftir því að strandgæsla Grænlands mæti á vettvang og dragi ferlíkið á haf út.

Ekki bætir heldur úr skák að búist er við rigningu á norðanverðu Grænlandi, en vætutíð er sögð auka líkurnar á niðurbroti borgarísjakans - eða svokallaðri kelfingu.

Hér að neðan má sjá myndband sem birtist á vef grænlenska ríkisútvarpsins af borgarísjakanum. Í því má sjá þegar stærðarinnar klumpur brotnaði úr ísjakanum, ásamt meðfylgjandi öldugangi í sjónum fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×