Lífið

Cohen krefur Palin um afsökunarbeiðni í karakter

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sacha Baron Cohen hefur ferðast um Bandaríkin og hrellt hina ýmsu stjórnmálamenn, til að mynda Söruh Palin.
Sacha Baron Cohen hefur ferðast um Bandaríkin og hrellt hina ýmsu stjórnmálamenn, til að mynda Söruh Palin. Vísir/getty
Grínistinn og leikarinn Sacha Baron Cohen krefst þess að stjórnmálakonan Sarah Palin biðji sig afsökunar. Tilefnið er viðtal, sem Palin hefur sakað Cohen um að hafa narrað sig í á fölskum forsendum.

Vísir greindi frá viðbrögðum Palin í vikunni en hún vandaði Cohen ekki kveðjurnar í Facebook-færslu. Þar sagði hún grínistann sjúkan og illan eftir að honum tókst að fá Palin í viðtal undir þeim formerkjum að hann væri slasaður, fyrrverandi hermaður.

Sjá einnig: Dick Cheney áritaði vatnspyntingatól

Nú hefur Cohen hins vegar svarað gagnrýni Palin og gerir það í karakter. Yfirlýsing hans er undirrituð af „Billy Wayne Ruddick Jr., PhD“, sem segist hafa tekið umrætt viðtal.

„Ég sagði EKKI að ég væri fyrrverandi hermaður. Ég gegndi þjónustu, ekki á vegum hersins heldur póstþjónustu ríkisins, og ég barðist aðeins fyrir land mitt einu sinni – þegar ég skaut Mexíkana sem kom inn á landareign mína,“ skrifaði grínistinn.

Þá lauk hann yfirlýsingunni með afgerandi kröfu um afsökunarbeiðni frá Palin.

Greint var frá því á dögunum að grínistinn, sem er hvað þekktastur fyrir að glæða Ali G, Borat og Bruno lífi, hafi síðastliðið ár unnið að gerð nýrrar þáttaraðar. Í þáttunum kannar Cohen hinar ýmsu hliðar bandarískra stjórnmála og er hann sagður hafa tekið þungavigtarmenn á borð við Bernie Sanders og Dick Cheney tali - auk fyrrnefndrar Palin.

Nú hefur fyrrverandi þingmaðurinn Roy Moore sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann hótar því að lögsækja Cohen. Moore segist hafa þegið boð á verðlaunaafhendingu í Washington D.C. í febrúar síðastliðnum þar sem átti að heiðra hann fyrir stuðning sinn við Ísrael. Umræddur viðburður var á vegum Cohen og er Moore afar ósáttur við athæfið.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×