Lífið

Sýður á Palin eftir spjall við hinn „illa“ Cohen

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Sacha Baron Cohen hefur ferðast um Bandaríkin og hrellt hina ýmsu stjórnmálamenn, til að mynda Söruh Palin.
Sacha Baron Cohen hefur ferðast um Bandaríkin og hrellt hina ýmsu stjórnmálamenn, til að mynda Söruh Palin. Vísir/getty
Bandaríska stjórnmálakonan Sarah Palin vandar breska grínistanum Sacha Baron Cohen ekki kveðjurnar. Hann er að hennar mati illur og sjúkur eftir að honum tókst að narra Palin í viðtal undir þeim formerkjum að hann væri slasaður, fyrrverandi hermaður.

Greint var frá því á dögunum að grínistinn, sem er hvað þekktastur fyrir að glæða Ali G, Borat og Bruno lífi, hafi síðastliðið ár unnið að gerð nýrrar þáttaraðar. Í þáttunum kannar Cohen hinar ýmsu hliðar bandarískra stjórnmála og er hann sagður hafa tekið þungavigtarmenn á borð við Bernie Sanders og Dick Cheney tali - auk fyrrnefndrar Palin, sem bauð sig fram til varaforseta Bandaríkjanna árið 2008. Vísir greindi til að mynda frá því að grínistinn hafi fengið Cheney til að árita vatnspyntingatól að spjalli þeirra loknu.

„Já, við vorum plötuð. Þú náðir mér, Sacha. Líður þér betur núna?“ spyr Sarah Palin á Facebook-síðu sinni og bætir við að hún hafi nú bæst við langan lista þekktra Bandaríkjamanna sem hafa látið hinn „illa og sjúka“ breska „grínista“ narra sig.

Sjá einnig: Dick Cheney áritaði vatnspyntingatól

Palin segir að hún hafi ferðast með dóttur sinni til Washington D.C. þar sem viðtalið átti sér stað, en hún hafði talið það vera innlegg í „alvöru heimildarþætti“ eins og hún orðar það. Þar hafi Cohen tekið á móti henni í gervi fyrrverandi hermanns, sem notaðist við hjólastól.

Hún segir sig hafa þurft að líða ýmsar svívirðingar í viðtalinu og að grínistinn hafi talað niður til sín og bandarískra hermanna. Að lokum hafi hún fengið nóg, staðið upp og rifið hljóðnemann af sér.

Þar að auki segir Palin að framleiðendur þáttanna hafi vísvitandi ekið sér og dóttur hennar á rangan flugvöll. Það hafi orðið til þess að mæðgurnar misstu af fluginu heim til Alaska, þar sem Palin var eitt sinn ríkisstjóri.

Hún skorar á Cohen og aðra framleiðendur að gefa ágóðan af þáttunum til samtaka sem styðja við bakið á fyrrverandi hermönnum. Þættir Cohen, sem bera nafnið Who is America? hefja göngu sína næstkomandi mánudag.

Færslu Palin má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×