Erlent

Ísraelskar herþotur gerðu loftárásir á Gaza-svæðinu

Sunna Sæmundsdóttir og Sylvía Hall skrifa
Mikill reykur steig upp frá byggingunni sem skotið var á í dag.
Mikill reykur steig upp frá byggingunni sem skotið var á í dag. Vísir/Getty
Ísraelskar herþotur gerðu loftárás á Gaza-svæðið í dag. Að minnsta kosti tólf særðust, þar af tvö börn, þegar skotið var á yfirgefna byggingu síðdegis en í morgun voru árásir gerðar á bækistöðvar Hamas-liða. Yfirvöld í Palestínu segja tvo hafa látist í árásum dagsins. 

Yfir 40 skotmörk voru hæfð í fyrstu árásunum sem hófust snemma í morgun að sögn ísraelskra hermálayfirvalda. Þar af göng Hamas-liða í suðurhluta Gaza og byggingar á hernaðarsvæðum.

Síðdegis var skotið á yfirgefna byggingu á Gaza-svæðinu en við hlið hennar er almenningsgarður. Tólf vegfarendur særðust og þar af voru tvö börn. 

Þetta er ein stærsta hernaðaraðgerð af hálfu Ísrael frá árinu 2014 þegar stríð geisaði á milli landsins og Hamas-samtakanna. 

„Ef Hamas fær ekki skilaboðin í dag, þá berast þau á morgun“ 

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, segir aðgerðirnar halda áfram svo lengi sem þörf krefur. Þetta séu viðbrögð við hryðjuverkaárásum Hamas-samtakanna.

„Við munum auka umfang viðbragða okkar við hryðjuverkaárásum Hamas svo lengi sem við þurfum. Ef Hamas fær ekki skilaboðin í dag, þá berast þau á morgun.“, segir Netanyahu. 

Sjónarvottar segja tvo hafa fallið eftir að skotið var á yfirgefna byggingu á Gaza-svæðinu og þeir látnu hafi verið vegfarendur nærri byggingunni. Þetta kemur í kjölfar fregna af því að á föstudag hafi Palestínumaður verið skotinn til bana í mótmælum við landamærin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×