Innlent

Miklar breytingar á reiðhjólakafla

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Hjólreiðamenn munu hafa val um göngu- eða hjólastíg.
Hjólreiðamenn munu hafa val um göngu- eða hjólastíg. FRÉTTABLAÐIÐ/EYÞÓR
Bannað verður að leggja bílum á hjólastígum og lágmarks hliðarbil við akstur fram úr reiðhjóli skal var 1,5 metrar. Þetta er meðal breytinga sem orðið hafa á frumvarpsdrögum til nýrra umferðarlaga í samráðsferli þess.

Frumvarpsdrögin voru lögð fram til kynningar í upphafi þessa árs og gafst almenningi kostur á að gera athugasemdir við það. Yfir fimmtíu athugasemdir bárust. Ný drög, þar sem tekið hefur verið tillit til ýmissa athugasemda, voru lögð fram í samráðsgátt ríkisstjórnarinnar í gær. Hægt verður að gera athugasemdir við þau til 10. ágúst.

Sjá einnig: Líst ekki vel á lög um að hjóla í einfaldri röð 

Einna stærstum breytingum tók sá kafli sem tekur til reiðhjóla. Bætt var inn ákvæði um að nægilega hægt skuli aka þegar ökutæki nálgast reiðhjól á eða við veg. Þá var einnig felld út fortakslaus skylda reiðhjólamanns til að hjóla á hjólastíg þegar göngustígur er við hlið hans. Var það gert með þeim rökum að á slíkum stígum sé hraði oft mikill og það henti ekki öllum hjólreiðamönnum. Því hafa þeir val um að hjóla á hjóla- eða göngustíg. Þá verður gangandi heimilt að nota hjólastíg sé enginn göngustígur eða gangstétt til staðar.

Texta draganna um ökunám var breytt til muna eftir athugasemdir frá Ökukennarafélaginu og ökukennaranemum. Þá var ákvæði um heimild sveitarfélaga til gjaldtöku af notkun nagladekkja felld úr drögunum.




Tengdar fréttir

Líst ekki vel á lög um að hjóla í einfaldri röð

Nýmæli um hjólreiðar eru í drögum að nýjum umferðarlögum. Hjólreiðafólk segir drögin bæta litlu við öryggi þess og jafnvel draga úr því á sumum stöðum. Erlendur S. Þorsteinsson reiknifræðingur segir að líta eigi til nágrannalandanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×