Lífið

Milljarðamynd tekin úr sýningu eftir opnunarhelgina

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Flottar tæknibrellur og frægir leikarar tryggja greinilega ekki aðsókn.
Flottar tæknibrellur og frægir leikarar tryggja greinilega ekki aðsókn. Skjáskot
Dýrasta kvikmynd í sögu kínverskrar dægurmenningar, ævintýramyndin Asura, hefur verið kippt úr þarlendum kvikmyndahúsum eftir lélaga opnunarhelgi. Framleiðsla myndarinnar kostaði alls um 750 milljónir yuan, um 12 milljarða króna, an Asura halaði aðeins inn um 50 milljónum yuan fyrstu helgina. Það nemur rúmlega 6 prósentum framleiðslukostnaðarins.

Kvikmyndin byggir á kínverskri goðafræði og er hún glædd lífi með flottum tæknibrellum og mörgum af frægustu leikurum kínversku þjóðarinnar. Breska ríkisútvarpið greinir frá orðrómum þess efnis að til standi að leggja myndina aftur á teikniborðið, gera lagfæringar á henni og svo „frumsýna“ hana aftur síðar. Útgáfa myndarinnar sem frumsýnd var um helgina hafi hreinlega verið of léleg.

Farið þær tilraunir út um þúfur gæti Asura fengið eina verstu útreið í kvikmyndasögunni - enda myndi tapið af henni nema um 11 milljörðum íslenskra króna.

Asura var samvinnuverkefni margra stærstu kvikmyndavera Kína og var myndinni hrósað í hástert í kínverskum ríkismiðlum. Sögðu þeir að beðið væri eftir henni með óþreyju enda kvikmynd sem myndi skjóta öðrum kínverskum sumarsmellum ref fyrir rass. Vonast hafði verið til að Asura yrði upphafið að röð ævintýramynda sem gæfu Hringdadróttinssögu og Krúnuleikunum ekkert eftir. Það virðist ekki ætla að ganga eftir.

Þó svo að kínverskar myndir hafi almennt ekki náð mikilli hylli utan landsteinanna hafa verið gerðar tilraunir með samstarfsverkefni kínverskra og bandarískra kvikmyndavera. Frægasta afsprengi þeirra samvinnu er kvikmyndin The Great Wall. Þrátt fyrir að hafa náð að dekka framleiðslukostnaðinn þótti aðsóknin á myndina ekki standa undir væntingum.

Hér að neðan má sjá stiklu fyrir Asura, þ.e. þá útgáfu sem tekin hefur verið úr sýningu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×