Körfubolti

Ægir Þór á leið til Stjörnunnar

Ægir Þór Steinarsson spilar á Íslandi næsta vetur og það með Stjörnunni.
Ægir Þór Steinarsson spilar á Íslandi næsta vetur og það með Stjörnunni. vísir/stefán
Ægir Þór Steinarsson, landsliðsbakvörður í körfubolta, verður kynntur sem nýr leikmaður Stjörnunnar á blaðamannafundi Garðabæjarliðsins klukkan 14.00 í dag, samkvæmt heimildum Vísis.

Ægir kemur til Stjörnumanna frá Castelló á Spáni en þessi 27 ára gamli uppaldi Fjölnismaður spilaði síðast hér á landi með KR veturinn 2015-2016 og varð þá Íslandsmeistari með Vesturbæjarliðinu.

KR var einnig á eftir Ægi að þessu sinni en hann valdi frekar að spila með Stjörnunni, samkvæmt heimildum Vísis. KR-liðið er að fara í gegnum miklar breytingar eftir að drottna yfir íslenskum körfubolta undanfarin fimm ár.

Stjörnuliðið er með nýjan þjálfara en Arnar Guðjónsson tók við stjórnartaumunum í Garðabænum eftir vonbrigðin á síðustu leiktíð.

Liðið hefur bætt við sig Degi Kár Jónssyni frá Grindavík sem er kominn heim þannig það verður ekki amalegt bakvarðatvíeyki á gólfinu í Garðabænum næsta vetur í Domino´s-deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×