Erlent

Fót­bolta­strákarnir út­skrifaðir af spítala degi fyrr en á­ætlað var

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hluti af strákunum sést hér á spítalanum.
Hluti af strákunum sést hér á spítalanum. vísir/ap
Taílensku fótboltastrákarnir tólf og þjálfari þeirra verða útskrifaðir degi fyrr en áætlað var, nánar tiltekið á morgun.

Þá munu þeir ræða við fjölmiðla í fyrsta sinn frá því að þeim var bjargað úr hellingum Tham Luang í norðurhluta Taílands í síðustu viku en þeir höfðu þá setið fastir í hellinum í um tvær vikur.

Björgun drengjanna úr hellinum vakti heimsathygli enda fór hún fram við afar erfiðar aðstæður í miklu myrkri, í vatni og í kappi við tímann.

Eftir að drengjunum var bjargað einum í einu úr hellinum og þjálfaranum einnig hafa þeir dvalið á Chiang Rai Prachanukroh-spítalanum þar sem þeir jafna sig.

Höfðu sumir drengjanna fengið lungnabólgu en í taílenska heilbrigðisráðuneytið staðfesti í síðustu viku að þeir væru að jafna sig fljótt. Þá sýndi myndband sem sýnt var á blaðamannafundi um helgina drengina káta þar sem þeir þökkuðu öllum þeim sem komu að björguninni.

Útskrifa átti drengina og þjálfarann á fimmtudag en þar sem bati þeirra hefur verið svo góður og gengið hraðar fyrir sig en áætlað var verða þeir útskrifaðir á morgun.


Tengdar fréttir

Fótboltastrákarnir útskrifast á fimmtudag

Taílensku fótboltastrákarnir sem festust ásamt helli með þjálfara sínum hafa frá björgun verið á Chiang Rai sjúkrahúsinu. Stefnt er að því að þeir yfirgefi það á fimmtudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×