Erlent

Nýtt upphaf í vændum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Tyrklandsforseti hefur tekið hart á andstæðingum sínum á undanförnum árum.
Tyrklandsforseti hefur tekið hart á andstæðingum sínum á undanförnum árum. VÍSIR/AFP
Tveggja ára löngu neyðarástandi lýkur í Tyrklandi í dag. Recep Tayyip Erdogan forseti lýsti þessu neyðarástandi yfir eftir misheppnaða valdaránstilraun sem hann kenndi útlæga klerkinum Fethullah Gülen um.

Á meðan á því stóð var 150.000 opinberum starfsmönnum sagt upp vegna meintra tengsla við hreyfingu Gülens og 77.000, grunaðir um tengsl við valdaránið, voru ákærðir. Mannréttindasamtök og yfirvöld á Vesturlöndum hafa gagnrýnt þessar aðgerðir forsetans mjög.

Erdogan var á dögunum endurkjörinn forseti í tímamótakosningum þar í landi sem mörkuðu nýtt upphaf í tyrkneskum stjórnmálum. Þingræðið er horfið á braut og í staðinn búa Tyrkir nú við forsetaræði. Meiri völd hafa sem sagt færst til forsetans.

Stjórnarandstæðingar sögðu við Reuters í gær að þótt neyðarástandið væri liðið undir lok myndi lítið breytast. Ný hryðjuverkalöggjöf Erdogans myndi færa honum nægileg völd til þess að þagga niður alla gagnrýni. „Þótt ríkisstjórnin reyni að selja þessa nýju löggjöf sem endalok neyðarástandsins er í raun verið að gera neyðarástandið varanlegt,“ sagði Ayhan Bilgen, talsmaður kúrdíska flokksins HDP.


Tengdar fréttir

Erdogan herðir tökin í Tyrklandi

Yfirvöld í Tyrklandi halda áfram að þrengja að tjáningarfrelsinu í landinu og reka ríkisstarfsmenn sem sakaðir eru um tengls við stjórnarandstöðu klerkinn Fethullah Gulen. Fimmtán fréttastofum var lokað þar í morgun og ritstjóri stjórnarandstöðublaðsins Cumhuriet var hnepptur í varðhald.

Rannsaka þátt Flynn í meintri áætlun um að ræna Gülen

Robert Mueller rannsakar nú hvort að fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafinn Michael Flynn hafi átt einhverja aðild að meintri áætlun um að ræna tyrkneska klerknum Fethullah Gülen og framselja hann til Tyrklands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×