Erlent

Elon Musk býður fram aðstoð við björgun fótboltastrákanna

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mikill viðbúnaður er við hellakerfið þar sem drengirnir hafa mátt hýrast undanfarna daga.
Mikill viðbúnaður er við hellakerfið þar sem drengirnir hafa mátt hýrast undanfarna daga. Vísir/Getty
Fulltrúar á vegum Elon Musk eru í viðræðum við yfirvöld í Taílandi um hvernig fyrirtæki í eigu frumkvöðulsins geti aðstoðað við björgun fótboltastrákanna sem dvalið hafa í helli í tólf daga.

Bloomberg greinir frá og hefur eftir talsmanni Musk. Mögulegt sé að SpaceX eða Boring Company, bæði í eigu Musk, muni geta aðstoðað við björgunaraðila við að finna nákvæma staðsetningu drengjanna í hellinum eða boðið fram aðstoð við að dæla vatni úr hellunum. Þá sé einnig til skoðunar að senda kraftmiklar rafhlöður frá Tesla til Taílands.

Í frétt Bloomberg segir að alls óvíst sé hvort taílensk yfirvöld muni þiggja aðstoðina en Musk hefur tíst um málið og boðið fram aðstoð sína sé vilji fyrir því.

Drengirnir tólf hafa dvalið í hellinum í tólf daga en þeir fundust á mánudaginn. Eru þeir við ágæta heilsu en sökum þess hversu mikið vatn er í hellinum gæti reynst þrautinni þyngri að koma drengjunum út.

Þá er spáð úrhelli um helgina og því hafa vonir staðið til að hægt sé að bjarga drengjunum sem fyrst, en um þúsund manns koma að aðgerðum við hellakerfið.


Tengdar fréttir

Ný leið til strákanna í hellinum mögulega fundin

Ríkisstjóri Chiang Rai-héraðs í Taílandi segir nú að búið að sé að finna nýtt hellisop sem kunni að leiða til staðarins þar sem drengirnir hafa nú verið fastir í ellefu daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×