Leikurinn var frábær frá fyrstu mínútu og setti Kevin de Bruyne tóninn strax á annari mínútu með góðu skoti sem fór rétt framhjá marki Brasilíu. Örfáum mínútum seinna átti Thiago Silva skot, ef skot má kalla þar sem boltinn fór af lærinu á honum, í stöngina.
Það voru Belgar sem náðu fyrsta markinu, það kom á 13. mínútu. Fernandinho skoraði sjálfsmark upp úr hornspyrnu Nacer Chadli, boltinn fór í öxlina á Fernandinho og í marknetið.
Brassarnir reyndu að svara strax og komst Gabriel Jesus í dauðafæri en náði ekki að nýta sér það. Í staðinn skoruðu Belgar sitt annað mark á 31. mínútu. Neymar tók hornspyrnu fyrir Brasilíumenn, Romelu Lukaku vann boltann og þaut af stað upp völlinn. Hann fann Kevin de Bruyne sem hafði nægan tíma til þess að munda skotfótinn og skoraði með þrumuskoti út við fjærstöngina.

Brasilíumenn geta samt ekki sagt annað en að þeir hafi reynt. Seinni hálfleikurinn fór nær eingöngu fram á vallarhelming Belga og voru þeir undir stanslausri pressu frá Brössunum.
Þetta belgíska lið er hins vegar skipað virkilega öflugum varnarmönnum og markmanni sem sýndi það í dag að hann er í heimsklassa. Courtois var alltaf vakandi, sýndi frábær viðbrögð og varði meistaralega trekk í trekk.
Brassarnir náðu þó að sigra hann einu sinni, varamaðurinn Renato Augusto skoraði aðeins þremur mínútum eftir að hann kom inn á með hnitmiðuðum skalla eftir frábæra fyrirgjöf Philippe Coutinho.
Brasilíumennirnir héldu áfram en náðu ekki jöfnunarmarkinu og eru því úr leik. Belgar fara áfram í undanúrslit þar sem þeir mæta Frökkum á þriðjudag.