Körfubolti

Þakka körfuknattleiksdeild Grindavíkur fyrir að koma heiðarlega fram

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sigtryggur Arnar í leik með Stólunum á síðustu leiktíð.
Sigtryggur Arnar í leik með Stólunum á síðustu leiktíð. vísir/eyþór
Stjórn körfuknattsleiksdeildar Tindastóls birti yfirlýsingu á fréttamiðlinum Feykir í morgun þar sem farið er yfir brotthvarf Sigtryggs Arnars Björnssonar frá félaginu.

Mikið fjaðrafok var í kringum félagaskipti Sigtryggs en Stólarnir töldu hann vera með samning við félagið. Sigtryggur Arnar var ekki á sama máli og samdi við Grindavík.

Vísir greindi fyrst frá málinu og rætt var meðal annars við Hannes S. Jónsson, formann KKÍ, sem bað menn einfaldlega bara að virða gerða samninga.

Í morgun birti Tindastóll svo yfirlýsingu þar sem þeir segja frá því að samkomulag hafi náðst við Grindavík um félagaskipti Sigtryggs sem leikur því með Grindavík á næstu leiktíð.

„Vill stjórn körfuknattleiksdeildar Tindastóls koma á framfæri þökkum til körfuknattleiksdeildar Grindavíkur fyrir að koma heiðarlega fram til að ná sáttum um félagsskipti leikmannsins og óskar Grindavík góðs gengis á komandi tímabili,” segir að lokum.

Yfirlýsingin í heild sinni:

Í ljósi frétta síðustu daga vill körfuknattleiksdeild Tindastóls koma eftirfarandi á framfæri.

Samkomulag hefur náðst á milli körfuknattleiksdeildar Tindastóls og körfuknattleiksdeildar Grindavíkur sem heimilar félagsskipti Sigtryggs Arnars Björnssonar sem nú þegar hefur skrifað undir samning við Grindavík.

Sigtryggur Arnar var einn af mikilvægari leikmönnum Tindastóls á síðasta tímabili og er mikil eftirsjá af leikmanninum.

Stjórn Tindastóls vill þakka Sigtryggi Arnari fyrir frábært tímabil en harmar jafnframt þá ákvörðun leikmannsins að klára ekki samning sinn við liðið.

Vill stjórn körfuknattleiksdeildar Tindastóls koma á framfæri þökkum til körfuknattleiksdeildar Grindavíkur fyrir að koma heiðarlega fram til að ná sáttum um félagsskipti leikmannsins og óskar Grindavík góðs gengis á komandi tímabili.

Stjórn körfuknattleiksdeildar Tindastóls.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×