Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur gefið út ákæru á hendur Sindra Þór Stefánssyni, auk fleiri manna til viðbótar, fyrir stórfelldan þjófnað úr gagnaverum í desember og janúar. Þetta staðfestir Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjórinn á Suðurnesjum, í samtali við Vísi en RÚV greindi fyrst frá.
Ólafur Helgi segir að ákæran hafi verið send Héraðsdómi Reykjaness í dag og að ákært sé vegna meintrar aðildar mannanna að áðurnefndum þjófnaði. Nokkrir mannanna eru auk þess ákærðir fyrir að halda upplýsingum frá lögreglu.
Sjá einnig: Rannsókn á Bitcoin-málinu á lokametrunum
Ekki fékkst staðfest hversu margir eru ákærðir fyrir þjófnaðarbrot ásamt Sindra. Þá er Sindri ekki ákærður fyrir flótta sinn úr fangelsinu að Sogni, sem vakti mikla athygli í apríl síðastliðnum, þar eð flóttinn er ekki refsiverður.
Þjófnaðurinn er einn sá umfangsmesti í Íslandssögunni en 600 tölvum, sem enn eru ófundnar, var stolið úr gagnaverum í Reykjanesbæ og Borgarbyggð. Verðmæti þýfisins er talið nema rúmum 200 milljónum króna.
Þann 17. apríl síðastliðinn strauk Sindri úr fangelsinu að Sogni, þar sem hann hafði verið í gæsluvarðhaldi vegna gruns um aðild að þjófnaðinum, og flaug til Svíþjóðar. Hann var handtekinn í Amsterdam fimm dögum síðar og úrskurðaður í farbann þegar til Íslands var komið.
Ákæra gefin út á hendur Sindra Þór og meintum samverkamönnum
Tengdar fréttir
Rannsókn á Bitcoin-málinu á lokametrunum
Tölvurnar enn ófundnar.
Landsréttur staðfesti farbann yfir Sindra
Þorgils Þorgilsson, verjandi Sindra, krafðist þess að farbannsúrskurðurinn yrði felldur úr gildi.
Engu svarað um gæsluvarðhald
Engin svör fengust við fyrirspurn Þorsteins Víglundssonar, þingmanns Viðreisnar.