Viðskipti innlent

Smáaurar fengust upp í risakröfur á félag Lýsingar

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Lykill hét áður Lýsing. Pera er dótturfélag Lykils.
Lykill hét áður Lýsing. Pera er dótturfélag Lykils. Fréttablaðið/Stefán
Skiptum á þrotabúi Peru ehf. lauk í júní og var niðurstaðan sú að 1,1 milljón fékkst greidd upp í kröfur á hendur félaginu sem námu tæplega 19,7 milljörðum króna. Þetta kemur fram í auglýsingu í Lögbirtingablaðinu.

Pera er dótturfélag Lykils fjármögnunar, sem áður hét Lýsing, og var stofnað árið 2007. Félagið hélt utan um tryggingar vegna lánveitinga Deutsche Bank til Lýsingarsamstæðunnar upp á tugi milljarða króna. Kröfuréttindin sem voru á undirliggjandi samningum hjá Lýsingu voru þannig framseld til Peru. Lánin voru endurfjármögnuð árið 2013 og dró þá verulega úr starfsemi félagsins.

Í ársreikningi Lykils fyrir árið 2017 segir að í desember hafi stjórn Peru sent beiðni til dómstóla þess efnis að félagið yrði tekið til slitameðferðar með hliðsjón af ógjaldfærni félagsins. Enn fremur segir að yfirfæranlegt tap Lykils, þá Lýsingar, á árunum 2010, 2011 og 2012, sem nam tæplega 16,9 milljörðum í heildina, sé komið frá Peru og falli niður við gjaldþrot félagsins. Hins vegar myndist skattaleg gjaldfærsla vegna tapaðrar kröfur Lykils á hendur Peru að fjárhæð 18,5 milljarðar króna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×