Íslenska kvennalandsliðsins í körfubolta skipað leikmönnum tuttugu ára og yngri tapaði fyrsta leiknum á EM 2018 en þær fengu skell gegn Búlgaríu, 75-48.
Liðin eru í B-deildinni á EM en íslensku stúlkurnar byrjuðu afar illa og skoruðu einungis fjögur stig í fyrsta leikhlutanum. Staðan 18-4 fyrir Búlgaríu eftir fyrstu tíu mínúturnar.
Stelpurnar okkar áttu hins vegar góðan annan leikhluta og staðan 30-26, Búlgaríu í vil í hálfleik. Allt opið og spennandi fyrir síðari hálfleikinn.
Aftur áttu íslensku stelpurnar slakan leikhluta í þriðja leikhlutanum. Búlgaría vann þann leikhluta 23-9 og eftir það var eftirleikurinn auðveldur.
Lokatölur urðu 27 stiga sigur Búlgaríu, 75-48, en næsti leikur íslenska liðsins er á morgun er þeir mæta Danmörku í B-deildinni.
Thelma Dís Ágústsdóttir skoraði ellefu stig fyrir Ísland og tók þar að auki tólf fráköst. Næst kom Ragnheiður Einarsdóttir með sjö stig og Katla Rún Garðarsdóttir með sex stig.
