Erlent

Áhyggjufullir foreldrar bíða eftir fregnum við hellinn

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Móðir eins þeirra sem sagður er hafa verið bjargað úr hellinum í Chiang Rai í Taílandi fyrr í dag segist ekki hafa fengið staðfestingu á því að sonur hennar hafi verið einn þeirra fjögurra sem komst út. Hún, ásamt foreldrum, hafa sofið við hellinn undanfarna daga.

Fjórum drengjum var bjargað úr hellinum fyrr í dag í aðgerð sem heppnaðist betur en bjartsýnustu menn þorðu að vona en aðeins átta tíma tók að koma þeim út. Þeir voru fluttir strax á sjúkrahús í Chiang Rai borg.

Yfirvöld hafa ekki gefið út nöfn þeirra sem bjargað var úr hellinum en á samfélagsmiðlum og í taílenskum fjölmiðlum hefur meðal annars verið greint frá því að einn þeirra hafi verið hinn fjórtán ára gamli Mongkhol Boonpiam. Móðir hans segist hafa frétt af í gegnum samfélagsmiðla að sonur hennar kunni að vera kominn út.

„Ég heyrði nafnið hans, Mongkhol, og ég varð hamingjusöm,“ sagði Namhom Boonpiam, móðir drengsins í samtali við Guardian.

Drengjunum var ekið í burtu um leið í sjúkrabílum.Vísir/Getty

Kafararnir föðmuðu drengina um leið og ljóst var að þeir væru hólpnir

Hún hefur undanfarna daga dvalið við hellinn dag og nótt og beðið fregna, líkt og margir aðrir foreldrar þeirra sem fastir eru í hellinum. Hún hefur þó ekki ákveðið hvað sé það fyrsta sem hún muni segja við hann þegar þau hittast á nýjan leik.

„Ég verð að hitta hann fyrst,“ sagði Namhom. Talið er að Mongkhol hafi verið fyrstur drengjanna til þess að komast út úr hellinum með hjálp kafara, sem föðmuðu strákanna fjóra um leið og ljóst var að þeir væru lausir úr prísundinni.

„Þetta tókst meistaralega vel,“ sagði Narongsak Osatanakorn, sem stýrir björgunaraðgerðunum. Átta drengir og þjálfari þeirra eru þó enn í sömu sporum inn í hellinum. Hlé hefur verið gert á björgunaraðgerðum en búist er við að þær muni hefjast aftur klukkan átta á morgun að staðartíma, eða klukkan eitt í nótt að íslenskum tíma.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×