Viðskipti innlent

Guðmundur segir sig úr stjórn HB Granda

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guðmundur Kristjánsson er komin úr stjórn HB Granda en hann er forstjóri fyrirtækisins.
Guðmundur Kristjánsson er komin úr stjórn HB Granda en hann er forstjóri fyrirtækisins. Fréttablaðið/Anton Brink
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri HB Granda, hefur sagt sig úr stjórn HB Granda. Þetta kemur fram í tilkynningu HB Granda til Kauphallarinnar í morgun.

Þann 21. júní ákvað stjórn HB Granda að segja Vilhjálmi Vilhjálmssyni forstjóra upp störfum og ráða Guðmund, þáverandi stjórnarformann HB Granda, nýjan forstjóra. Óvissa er uppi um hvort HB Granda hafi verið heimilt að ráða Guðmund, aðaleiganda Brims, stærsta hluthafa útgerðarinnar.

Rannveig Rist sagði sig sem kunnugt er úr stjórn HB Granda þar sem hún var óánægð með hvernig staðið var að uppsögn Vilhjálms.

Viðskiptablaðið greindi frá því um helgina að Samkeppniseftirlitið hefði til skoðunar hvort myndast hefði yfirráð í skilningi samkeppnislaga þegar Brim eignaðist 34 prósenta hlut í HB Granda í maí.

Guðmundur er því sem stendur aðaleigandi og stjórnandi Brims en um leið forstjóri HB Granda.


Tengdar fréttir

Studdu ekki brottrekstur forstjórans

Tveir stjórnarmenn töldu rétt að bíða þar til yfirtökutilboð Brims í HB Granda var runnið út. Einhugur um ráðningu Guðmundar í forstjórastólinn. Ráðninguna bar mjög brátt að og hún kom stórum hluthöfum í útgerðinni nokkuð á óvart á þessum tímapunkti.

Hafði fullan hug á því að starfa áfram hjá HB Granda

Vilhjálmur Vilhjálmsson, sem vikið var úr starfi forstjóra HB Granda á fimmtudaginn í síðustu viku, segist í yfirlýsingu á vefsíðu félagsins ekki ætla að tjá sig um forstjóraskiptin og starfslok sín en tekur þó fram að hann hafi haft fullan hug á því að starfa áfram hjá HB Granda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×