Viðskipti innlent

Afkoma álversins í Straumsvík batnar

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan á Íslandi.
Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan á Íslandi.
Álver Rio Tinto Alcan í Straumsvík tapaði tæpum 393 þúsund dölum eða sem jafngildir 43 milljónum króna í fyrra, samkvæmt nýbirtum ársreikningi félagsins. Afkoman batnaði á milli ára, þrátt fyrir taprekstur, en álverið skilaði tapi upp á 34 milljónir dala árið 2016.

Í skýrslu stjórnar félagsins, Rio Tinto á Íslandi hf., segir að markaðsaðstæður hafi haldið áfram að batna á árinu og verð á afurðum hækkað jafnt og þétt. Það hafi leitt til metframleiðslu en framleiðsla kerskála var í heild sinni 211.534 tonn á árinu og jókst um sex þúsund tonn frá fyrra ári.

Sölutekjur álversins námu 521 milljón dala og jukust um 37 prósent frá árinu 2016 og þá voru rekstrargjöldin tæplega 522 milljónir dala borið saman við 429 milljónir dala árið áður. Munaði þar mestu um þyngri launakostnað en hann jókst um hátt í fimmtung á síðasta ári.

Álverið í Straumsvík skilaði rekstrarhagnaði upp á 619 þúsund dali í fyrra borið saman við 47 milljóna dala rekstrartap árið 2016.

Eignir félagsins námu 588 milljónum dala í lok síðasta árs en þær voru 707 milljónir dala í lok árs 2016. Eigið fé var 518 milljónir í lok árs 2017. Þá var fjöldi ársverka 399 á árinu samanborið við 416 árið 2016.

Sem kunnugt er gerði norski álframleiðandinn Norsk Hydro kauptilboð í álver Rio Tinto í Straumsvík í febrúar síðastliðnum. Er gert ráð fyrir að kaupin gangi í gegn undir lok þessa mánaðar, að því er segir í ársreikningnum.




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×