Innlent

Baltasar Kormákur vonar að einkasýningin skili sama árangri og síðast

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Baltasar Kormákur vonast eftir íslenskum sigri í kvöld, nema hvað.
Baltasar Kormákur vonast eftir íslenskum sigri í kvöld, nema hvað. Vísir
Baltasar Kormákur segir að strákarnir í íslenska karlalandsliðinu geti sótt innblástur til Tami Oldham, aðalpersónu nýjustu stórmyndar leikstjórans, nú þegar þeir standa frammi fyrir erfiðum leik gegn Króatíu þar sem ræðst hvort að liðið fer áfram í 16-liða úrslit eða ekki.

„Þeir þurfa á innblástri að halda,“ segir Baltasar Kormákur í viðtali við Hollywood Reporter en strákarnir í landsliðinu fóru í gær í lítinn bíósal í Rostov við Don þar sem þeir fengu einkasýningu á mynd Baltasars, Adrift.

Í myndinni er sagt frá baráttu Oldham við náttúruöflin þegar hún sigldi þvert yfir Kyrrahafið árið 1983 ásamt unnusta hennar. Lentu þau í miklum hremmingum vegna fellibylsins Raymond og þykir ótrúlegt að þau hafi komist lífs af.

„Ég sagði við þá ef þið haldið að þið séuð í þröngri stöðu, lítið þið bara á þessa konu,“ segir Baltasar í viðtalinu. Ísland þarf að sigra Króatíu og treysta á hagstæð úrslit í leik Nígeríu og Argentínu sem fram fer á sama tíma til þess að komast í 16-liða úrslitin.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem landsliðið fær einkasýningu á mynd úr smiðju Baltasars en árið 2015 fengu þeir að horfa á Everest í aðdraganda leiks Hollands og Íslands í undankeppni fyrir EM 2016. Sá leikur endaði vel enda fór Ísland með sigur af hólmi og vonast Baltasar til þess að landsliðið endurtaki leikinn í þetta skiptið.

„Vonandi gerist það aftur,“ segir Baltasar. „Ég tek þá heiðurinn fyrir sigurinn ef þeir vinna, en ég tek tapið ekki á mig.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×