Erlent

Dauðarefsing milduð í fimm ára fangelsisvist

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Noura ásamt eiginmanni sínum.
Noura ásamt eiginmanni sínum. Skjáskot
Áfrýjunardómstóll í Súdan dæmdi í gær Nouru Hussein í fimm ára fangelsi fyrir að myrða eiginmann sinn. Hussein hafði verið dæmd til dauða á lægra dómstigi.

Hussein, sem er nítján ára gömul, var þvinguð til að giftast frænda sínum þegar hún var sextán ára. Hann nauðgaði henni en þegar hann reyndi það á ný greip Hussein hníf, lagði til hans og banaði honum. Eftir verkið flúði Hussein til föður síns af ótta við hvað ættingjar eiginmanns hennar myndu gera henni. Faðir hennar leitaði til lögreglu í von um vernd en þess í stað var dóttir hans handtekin.

Dauðadómurinn yfir Hussein vakti athygli á heimsvísu en niðurstaða dómstóla í Súdan var fordæmd af alþjóðlegum samtökum sem berjast fyrir mannréttindum, þar á meðal Amnesty International en í yfirlýsingu frá samtökunum sögðu þau fimm ára fangelsisvist vera of harða refsingu.

„Eftir fyrri nauðgunina bar Noura hníf á sér til að geta svipt sig lífi ef hann myndi reyna þetta aftur. Þess í stað fór þetta svona,“ sagði móðir konunnar eftir að dómur hafði verið kveðinn upp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×