Erlent

Eyðing regnskóga nærri meti í fyrra

Kjartan Kjartansson skrifar
Á Indónesíu brenna bændur skóga til að búa til pláss fyrir pálmaolíuframleiðslu.
Á Indónesíu brenna bændur skóga til að búa til pláss fyrir pálmaolíuframleiðslu. Vísir/EPA
Regnskógar heims skruppu saman um 15,6 milljónir hektara á síðasta ári samkvæmt gervihnattamælingum. Ástæðan var meðal annars skógareldar sem kveiktir eru til að rýma til fyrir ræktarlandi, landbúnaður og ýmis konar auðlindanýting.

Samkvæmt tölum í skýrslu Global Forest Watch sem eru byggðar á gervihnattamælingum Maryland-háskóla var regnskógaeyðing í fyrra sú næstversta frá því að mælingar hófust, aðeins lítillega minni en árið áður.

Í Brasilíu rýmdu bændur og búgarðseigendur um 1,2 milljónir hektara af regnskógum. Í Kólumbíu þýddi friðarsamningur á milli ríkisstjórnarinnar og skæruliðasamtaka að námuvinnsla, skógarhögg og landbúnaður ruddi hluta Amazon-frumskógarins í burtu.

Við það bættist eyðing skóga af völdum náttúruhamfara eins og fellibyljanna Irmu og Maríu sem eyddu nærri því einum þriðja hluta skóga á eyjunni Dóminíku og stórum hluta skóglendis á Púertó Ríkó, að sögn New York Times.

Mælingarnar eru sagðar í góðu samræmi við fyrri rannsóknir sem hafa bent til þess að regnskógar séu að minnka að flatarmáli á jörðinni.

Í skýrslunni kemur þó fram að einhver árangur virðist hafa náðst á Indónesíu þar sem gengið hefur verið hart að regnskógum til að rýma til fyrir framleiðslu á pálmaolíu. Þar hafa bændur brennt mólendi þar sem gríðarlegt magn kolefnis er bundið.

Ríkisstjórn landsins lagði bann við frekari bruna á mólendi árið 2016 eftir mikla skógarelda. Fyrstu vísbendingar eru sagðar lofa nokkuð góðu. Eyðing mólendis hafi ekki verið minni í fjölda ára.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×