Körfubolti

Vonbrigði að vera ekki valinn þegar á hólminn var komið

Hörvar Ólafsson skrifar
Tryggvi Snær Hlinason er klár í að berjast fyrir sæti í NBA-deildinni.
Tryggvi Snær Hlinason er klár í að berjast fyrir sæti í NBA-deildinni. Vísir/Getty
Síðustu vikur hafa verði ansi viðburðaríkar hjá Tryggva Snæ Hlinasyni, landsliðsmanni í körfubolta, en hann hefur á þeim tíma ferðast mikið, æft með fjölmörgum afar frambærilegum körfuboltamönnum og tekið þátt í nýliðavali NBA. Þar var Tryggvi Snær ekki valinn, en þrátt fyrir að vera ánægður með allan þann lærdóm sem hann hefur dregið af ferlinu í kringum valið varð hann fyrir vonbrigðum með að vera ekki valinn.

„Þetta var auðvitað fyrst og fremst mjög gaman. Það var bæði gagnlegt og skemmtilegt að sjá hvar maður stendur í þessum bransa. Að máta sig við leikmenn í svona háum gæðaflokki sem eru að spila svipaða stöðu og ég mun nýtast mér í framhaldinu. Þetta tók líka vel á, það var mikil keyrsla á þessu öllu saman, mikið um ferðalög og nokkur þeirra löng. Það rífur líka í þegar það er mikil óvissa um næstu verkefni og að vera alltaf á hraðferð. Ég var aldrei viss um það hvernig næsti sólarhringur yrði og fékk vanalega bara að vita samdægurs hvert ég væri að fara næst,“ sagði Tryggvi Snær sem æfði í æfingabúðum NBA-liða víðs vegar um Bandaríkin í aðdraganda valsins.





Vísir/Getty
Fannst ég eiga alveg heima á þessu kalíberi

„Mér fannst ég standa mig ágætlega og eiga alveg heima á þessu kalíberi. Það er mikil áhersla á leikstöðuna einn á móti einum og þar átti ég í nokkrum vandræðum. Það er gott að sjá hvaða vankanta ég hef og hvað ég get helst bætt mig á næstu misserum. Það er mikið einangrað í stöðu þar sem menn eiga að ráðast á körfuna og ég verð að leggja áherslu á að verða betri í þeim hluta leiksins. Þetta opnar augun og gefur manni viðmið um hvað þarf að laga. Ég fékk leiðbeiningar frá reynslumiklum og mjög færum þjálfurum sem ég get klárlega nýtt mér,“ sagði Tryggvi Snær aðspurður um hvernig hefði gengið á æfingum með þessum hæfileikaríku leikmönnum.

„Flestir þjálfararnir voru jákvæðir í minn garð og þeir vita að ég hef líkamlega eiginleika sem geta nýst vel. Nú er bara að bæta líkamlegan styrk, tæknina og fínpússa minn leik. Ég tel mig eiga fullt erindi í þessa leikmenn og stefnan er að komast í NBA einn daginn. Það var vissulega stór stund að komast í valið að þessu sinni og mögnuð stund að vera viðstaddur valið. Það voru hins vegar vonbrigði að vera ekki valinn. Þegar maður er kominn svona nálægt þessu er leiðinlegt að komast ekki alla leið. Ég var hins vegar alveg viðbúinn því að þetta gæti farið svona að þessu sinni, en ég var svekktur að heyra ekki nafnið mitt,“ sagði Tryggvi Snær um upplifun sína af því að vera viðstaddur valið sem fram fór í Brooklyn í New York.

Vísir/Getty
Ætlar að fara í sumardeild NBA

„Hugmyndin er að fylgja þessu eftir með að fara í sumardeild NBA eftir landsliðsverkefnið, taka svo stutt frí og æfa svo á fullu í Santa Barbara í Los Angeles við toppaðstæður. Svo er það bara undirbúningstímabil með Valencia þar á eftir. Ég er samningsbundinn Valencia á næstu leiktíð og býst ekki við öðru en að vera þar áfram. Hlutirnir eru hins vegar fljótir að breytast í körfuboltaheiminum svo maður veit aldrei. Mér líður hins vegar vel í Valencia og langar að vera þar allavega eitt keppnistímabil í viðbót,“ sagði Tryggvi Snær sem er staddur í Búlgaríu þessa stundina með liðsfélögum sínum í íslenska landsliðinu þar sem þeir eru að búa sig undir leik gegn heimamönnum í undankeppni HM 2019 sem leikinn verður á morgun.

Ísland er í harðri baráttu um að komast áfram í milliriðla undankeppninnar, en þrjú af fjórum liðum í riðlakeppni forkeppninnar komast þangað. Ísland er sem stendur í öðru til þriðja sæti riðilsins með tvo vinninga, líkt og Finnland, sem eru næstu andstæðingar íslenska liðins í riðlakeppninni á eftir leiknum gegn Búlgaríu. Búlgaría nartar svo í hæla Íslands og Finnlands með einn sigur á botni riðilsins. Tékkland er hins vegar á toppi riðilsins með þrjá sigra. Tveir leikir eru eftir af riðlakeppninni og sigur á Búlgaríu tryggir sæti í milliriðlunum.

Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×