Erlent

Tólfti loftsteinsgígurinn fundinn í Finnlandi

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Gervitunglamynd sýnir staðsetningu gígsins.
Gervitunglamynd sýnir staðsetningu gígsins. Fréttablaðið/JÜRI PLADO
Hópur vísindamanna við jarðvísindastofnun Finnlands, háskólann í Helsinki og háskólann í Tartu í Eistlandi hefur uppgötvað ævafornan loftsteinsgíg í Mið-Finnlandi.

Gígurinn er 2,6 kílómetrar að þvermáli og liggur undir stöðuvatninu Summanen, sem er í um níu kílómetra fjarlægð frá borginni Saari­järvi. Ekki er vitað hversu gamall gígurinn er, eða hver efnasamsetning loftsteinsins var.

Lengi hafa verið grunsemdir um að gíg væri að finna á botni stöðuvatnsins en rafsegulrannsóknir sem gerðar voru á svæðinu í kringum aldamót renndu stoðum undir þessar grunsemdir. Á endanum staðfesti vettvangsrannsókn vísindamanna á síðasta ári kenninguna.

Þetta er tólfti loftsteinsgígurinn sem fundist hefur í Finnlandi, en þeir eru nú alls 191 sem vitað er um á Jörðinni.

Gígurinn undir Summanen-vatni er lítill í samanburði við stærsta gíg sem fundist hefur í Finnlandi. Hann fannst á svipuðum slóðum og er rúmlega 30 kílómetrar að þvermáli. Talið er að hann skollið á jörðinni fyrir um 1.100 milljónum ára. Engu að síður er talið að Summanen-loftsteinninn hafi valdið meiriháttar hamförum, enda fundu vísindamennirnir skýr merki um öfluga höggbylgju í bergi. Jafnframt er talið að gígurinn hafi verið mun stærri í fyrndinni en veðrun, skriðjöklar og jarðhræringar síðustu árþúsunda hafi orðið til þess að hann minnkaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×