Erlent

Lík XXXTentacion laðaði að þúsundir

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Athöfnin reyndi á marga aðdáendur rapparans.
Athöfnin reyndi á marga aðdáendur rapparans. Vísir/Getty
Þúsundir aðdáenda XXXTentacion söfnuðust saman í Flórída í gær, þar sem fram fór minningarathöfn um hinn umdeilda rappara.

Rapparinn, sem var skotinn til bana fyrir utan mótorhjólasölu í síðustu viku, var lagður í opna kistu umkringdur svörtum rósum á íþróttaleikvangi í borginni Sunrise.

Sjá einnig: XXXTentacion: Stutt og stormasöm ævi lituð ofbeldishneigð og þunglyndi

Á myndum og myndskeiðum frá athöfninni má sjá gríðarlegan fjölda aðdáenda hans, sem margir hverjir voru í öngum sínum. Meðal þeirra sem vottuðu rapparanum viðringu sína, sem hét réttu nafni Jahseh Onfroy, voru fjölskyldumeðlimir hans. Þeir voru klæddir í svört föt sem skreytt voru með myndum af XXXTentacion og vísunum í lögin hans, en mörg þeirra náðu töluverðum vinsældum vestanhafs.

XXXTentacion er á vef breska ríkisútvarpsins talinn vera einn umdeildasti rappari í sögu listformsins. Hann gaf út tvær breiðskífur á stuttri ævi, 17 og ?, sem seldust í bílförmum. Hann hafði verið kærður fyrir heimilisofbeldi og átti hann að mæta fyrir dómara nokkrum vikum eftir andlátið. Einn hefur verið handtekinn í tengslum við morðið á rapparanum.

Hér má nálgast ítarlega umfjöllun Vísis um ævi og störf XXXTentacion.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×