Körfubolti

Íslenski hópurinn tilbúinn í lykilleik á morgun

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Íslenska karlalandsliðið í körfubolta kemst áfram í aðra umferð undankeppni HM 2019 með sigri á Búlgaríu ytra á morgun.

Þegar öll lið eiga eftir að leika tvo leiki í undanriðlunum er Ísland í öðru sæti F riðils eftir glæsilega sigra á Finnum og Tékkum hér heima fyrr í vetur. Ísland og Finnland eru bæði með 6 stig, Tékkar eru á toppnum með 7 og Búlgarar í fjórða sæti með fimm stig. Efstu þrjú liðin fara áfram í aðra umferð undankeppninnar.

Ísland mun fara áfram í aðra umferð með sigri á Búlgörum. Ef leikurinn tapast verður Ísland að vinna Finna á mánudag og treysta því að Tékkarnir tapi ekki báðum leikjum sínum.

Miklar breytingar hafa verið á leikmannahópnum undanfarið og munu yngri leikmenn fá tækifæri til þess að stíga upp.

„Nýju leikmennirnir í hópnum hafa verið að spila vel og náð vel saman með hinum leikmönnunum. Hópurinn hefur náð mjög vel saman og við verðum tilbúnir á föstudag,“ sagði Craig Pedersen landsliðsþjálfari áður en liðið hélt út til Búlgaríu.

Önnur umferð undankeppninnar er milliriðill með efstu þremur liðunum úr E og F riðli. Upp úr milliriðlinum fara þrjú efstu liðin á HM. Í E riðli er Frakkland nú þegar komið áfram en Rússar, Bosníumenn og Belgar berjast um hin sætin tvö.

Einn af þeim nýju leikmönnum sem eru að koma inn í íslenska hópinn er Jón Axel Guðmundsson sem átti frábært tímabil með Davidson í bandaríska háskólaboltanum í vetur.

„Að koma hér og fá tækifærið að spila með þessum strákum og sýna hvað maður getur hér á Íslandi er skemmtilegt,“ sagði Jón Axel.

Leikur Íslands og Búlgaríu hefst klukkan 15:00 að íslenskum tíma á morgun, föstudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×