Innlent

Aukin á­hersla á for­varna­starf og sam­skipti við ferða­menn á há­lendi­svaktinni

Gissur Sigurðsson skrifar
Aukin áhersla verður lögð á samskipti og forvarnastarf við ferðamenn á hálendinu, af hálfu hálendisvaktar Landsbjargar, sem hefst í dag, 13. árið í röð. Um tvö þúsund tilvik koma að jafnaði til kasta vaktarinnar á hverju sumri.

Þessi störf eru unnin í sjálfboðavinnu eins og verið hefur en vaktin verður á þremur stöðum á hálendinu.

„Við verðum staðsett á þremur stöðum á hálendinu, að Fjallabaki í Landmannalaugum, á Sprengisandi í Nýjadal og norðan Vatnajökuls við Drekagil. Svo verðum við með svona viðbót í sumar, það er að segja við verðum í Skaftafelli í fjórar vikur sem við köllum svona viðbragðsvakt sem er angi af hálendisvaktinni,“ segir Jónas Guðmundsson, hjá Landsbjörg, en hálendisvaktin er nú annað röð í Skaftafelli.

Hversu mörg mál koma til kasta vaktarinnar á hverju sumri?

„Síðustu ár hafa þetta verið um 2000 atvik og af þeim eru kannski svona 15 til 20 prósent, 200 til 300 atvik, sem eru það sem við köllum F1, 2 eða 3 sem eru alvarlegri atvik. Hitt er minniháttar og svona atvik sem við leysum af því að við erum á staðnum.“

Eru þið að breyta eitthvað áherslum, vera meira fyrirbyggjandi en áður?

„Já, við erum aðeins að því. Hálendisvaktin er auðvitað fyrst og fremst viðvera á hálendinu og vera til staðar ef það koma upp óhöpp en við höfum verið að leggja meiri áherslu á slysavarnirnar og erum að fræða ferðamenn um veður, færð og aðstæður. Í samvinnu við breska sendiráðið erum við að prófa að spjaldtölvuvæða hópana þannig að við verðum með spjaldtölvur til að geta sýnt mönnum veðurspár, færðarkort og láta þá fylla inn ferðaáætlanir og þannig.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×