Körfubolti

Kristófer Acox og Jón Arnór spila báðir áfram með KR næsta vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson, Kristófer Acox og Ingi Þór Steinþórsson með Böðvari Guðjónssyni í dag.
Jón Arnór Stefánsson, Kristófer Acox og Ingi Þór Steinþórsson með Böðvari Guðjónssyni í dag. Vísir/Ástrós
Íslandsmeistarar KR í körfubolta karla munu njóta áfram góðs af þjónustu Jóns Arnórs Stefánssonar og Kristófer Acox en þeir skrifuðu báðir undir nýjan samning við KR-liðið í dag.

Þetta eru risastórar fréttir fyrir KR-inga ekki síst vegna þess að liðið hefur verið að missa lykilmenn og þjálfara á síðustu vikum. Tilkynnt var um samninganna á sama tíma og Ingi Þór Steinþórsson skrifaði undir fjögurra ára samning sem þjálfari liðsins.

Jón Arnór Stefánsson verður 36 ára gamall í haust en hann er að fara að hefja sitt þriðja tímabil með félaginu eftir að hann kom heim út atvinnumennsku.

Jón Arnór hefur misst af stórum hluta síðustu tveggja tímabil en komið sterkur inn eftir áramót og hjálpað liðinu að vinna síðustu tvo Íslandsmeistaratitla. „Hann á að minnsta kosti fjögur góð ár eftir,“ sagði Böðvar Guðjónsson um Jón Arnór á blaðamannafundi KR í dag.

Kristófer Acox er 24 ára gamall og margir bjuggust við því að hann færi erlendis eftir síðasta tímabil þar sem hann fór á kostum. Hann gerir tveggja ára samning. Kristófer ætlaði að fara út en ákvað að taka slaginn áfram í Vesturbænum.

Kristófer Acox var kosinn leikmaður ársins á síðasta tímabili auk þess að vera kosinn besti leikmaður úrslitakeppninnar. Hann var með 23 stig og 15 fráköst í leiknum sem KR tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn.

Kristófer kom heim í KR fyrir rúmu ári síðan og kláraði tímabilið 2016-17 með KR-liðinu eftir að hafa klárað háskólaferil sinn með Furman háskólanum í Bandaríkjunum.

Kristófer spilaði síðan allt 2017-18 tímabilið með KR þar sem hann var með 16,6 stig og 10,1 frákast að meðaltali í leik í öllum leikjum sínum á Íslandsmótinu.

Jón Arnór Stefánsson var með 11,3 stig, 3,0 fráköst og 2,2 stoðsendingar að meðaltali í leik í öllum 18 leikjum sínum á Íslandsmótinu 2018-19.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×