Erlent

Banna Oxfam að starfa á Haítí í kjölfar vændishneykslis

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Myndin er tekin í Port au Prince, höfuðborg Haítí, nákvæmlega einu ári eftir að jarðskjálftinn reið yfir eyjuna.
Myndin er tekin í Port au Prince, höfuðborg Haítí, nákvæmlega einu ári eftir að jarðskjálftinn reið yfir eyjuna. Vísir/AFP
Ríkisstjórn Haítí hefur bannað bresku góðgerðarsamtökunum Oxfam að starfa í landinu og gildir bannið til frambúðar. Ákvörðunin er tekin eftir að vændishneyksli skók samtökin snemma á þessu ári.

Í svari Oxfam við banninu, sem áður hafði verið sett á tímabundið, kemur fram að samtökin sýni ákvörðuninni skilning. Þá viðurkenna samtökin að hegðun starfsmanna á vegum Oxfam í Haítí í kjölfar jarðskjálfta sem reið yfir eyjuna árið 2010 hafi verið með öllu óásættanleg.

Sjá einnig: Næst­ráðandi Oxfam hættir vegna vændisskan­dals

Greint var frá því í febrúar að starfsmenn Oxfam á Haítí hefðu keypt vændi þar árið 2011 en í einhverjum tilfellum er talið að þeir hafi nýtt sér barnungar stúlkur.

Fjórir starfsmenn samtakanna voru reknir eftir að málið komst upp og þremur til viðbótar var gefinn kostur á að segja sjálfir upp störfum. Síðast í maí sagði svo stjórnandi Oxfam, Mark Goldring, af sér vegna málsins.

Þá eru starfsmenn samtakanna einnig taldir hafa sýnt af sér sambærilega hegðun í Afríkuríkinu Chad.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×