Erlent

Fyrst vopnin, svo þvinganirnar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Utanríkisráðherrarnir funduðu í Seúl í nótt.
Utanríkisráðherrarnir funduðu í Seúl í nótt. Vísir/EPA
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að Norður-Kórea verði áfram beitt viðskiptaþvingunum þangað til að stjórnvöld ríkisins hafa sýnt fram á algjöra kjarnorkuafvopnun.

Ekkert var minnst á viðskiptaþvinganir í því plaggi sem Bandaríkjaforseti og leiðtogi Norður-Kóreu undirrituðu í Singapúr á þriðjudag. Engu að síður hafa norður-kóreskir miðlar fagnað sigri og greint frá því að leiðtogarnir hafi sammælst um að viðskiptaþvingunum Bandaríkjanna gegn Norður-Kóreu verði aflétt.

Á fundi sínum með utanríkisráðherrum Japans og Suður-Kóreu undirstrikaði Pompeo að ekkert lægi fyrir um slíkt. Þvert á móti myndu Bandaríkin ekki hvika frá stefnu sinni fyrr en að stjórnvöld í Pjongjang væru búin að losa sig fullkomlega við öll kjarnavopn.

Sjá einnig: Norðurkóreskir miðlar segja að þvingunum verði aflétt

Fjölmargir hafa gangrýnt Singapúr-samkomulagið, ekki síst á þeim forsendum að það kveður ekkert á um það hvernig og hvenær Norður-Kórea skuli kjarnorkuafvopnast. Aðeins sé talað um það að Bandaríkin og Norður-Kórea muni vinna saman að því að losa Kóreuskagann við kjarnavopn.

Engu að síður hefur Bandaríkjaforseti heitið því að sameiginlegum heræfingum Bandaríkjahers og Suður-Kóreu verði hætt, en þær hafa lengi staðið í stjórnvöldum í Pjongjang. Loforð forsetans var hvorki borið undir herforingja Bandaríkjahers né yfirvöld í Suður-Kóreu.

Pompeo tók því skýrt fram á fundi sínum með utanríkisráðherrunum að bandalag Japans, Suður-Kóreu og Bandaríkjanna væri áfram „óhagganlegt.“ Hann mun funda reglulega með sendinefndum Norður-Kóreu á næstu vikum og mánuðum til að að tryggja að Singapúr-samkomulaginu verði fylgt eftir.


Tengdar fréttir

Norðurkóreskir miðlar segja að þvingunum verði aflétt

Ríkisdagblað Norður-Kóreu segir frá fundi Donalds Trump og Kim Jong-un í hástemmdri og gagnrýnislausri umfjöllun. Miðillinn í mótsögn við Bandaríkjaforseta þegar kemur að afléttingu viðskiptaþvingana. Bandaríkjaforseti segir þó fundinn með leiðtoga Norður-Kóreu hafa verið áhugaverðan og jákvæða reynslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×