Viðskipti innlent

Splunkunýr Mandi opnaði dyr sínar á fyrsta leikdegi Íslands

Sylvía Hall skrifar
Starfsfólk Mandi var að vonum hresst við opnun staðarins í dag.
Starfsfólk Mandi var að vonum hresst við opnun staðarins í dag. Mandi
Veitingastaðurinn Mandi við Ingólfstorg opnaði aftur eftir framkvæmdir við mikinn fögnuð viðskiptavina í dag. Staðurinn hefur verið lokaður í rúman mánuð og hefur mikil útlitsbreyting orðið á staðnum síðan þá.

Hlal Jarah, eigandi Mandi, segir opnunina hafa gengið vonum framar og mikill fjöldi fólks hafi lagt leið sína á staðinn í dag og fengið sér langþráð Shawarma eða hinn sívinsæla Mandi hummus. Hlal er viðskiptavinum staðarins vel kunnur og sagði hann í viðtali við Vísi í haust að honum þætti vænt um Íslendinga, sem margir hverjir leggja leið sína á staðinn einnig til þess að heilsa upp á glaðlegt starfsfólkið.

Staðurinn hefur fengið nýtt útlit og voru margir sem mættu á opnun staðarins í dag.Mynd/Mandi
Það var því viðeigandi að staðurinn opnaði í dag, en á sama tíma var leikur Íslands sýndur á risaskjá á Ingólfstorgi og því tilvalið fyrir svanga fótboltaunnendur að grípa í bita á staðnum vinsæla. Mandi setti inn færslu á Facebook-síðu sína fyrr í dag þar sem þeir lýstu yfir stuðningi við íslenska landsliðið með skemmtilegri tilvísun í víkingaklappið fræga og íslenska fánann má sjá á nýrri forsíðumynd staðarins.

Að sögn Hlal gengu framkvæmdir vel og er staðurinn nær óþekkjanlegur, en mikið var lagt í breytingarnar. Búið er að bæta við bekkjum og borðum svo fleiri geti setið og notið matarins á staðnum, en staðurinn er yfirleitt þéttsetinn.

Mandi er löngu orðinn vinsæll viðkomustaður Íslendinga sem sækja miðbæinn og því geta aðdáendur staðarins tekið gleði sína á ný og lagt leið sína niður á Ingólfstorg til þess að gæða sér á Sýrlenskri matargerð staðarins, en Hlal segir alla vera velkomna til þess að bera breytingarnar augum.

Hlal Jarah, eigandi Mandi, og stuðningsmaður landsliðsins smella einni sjálfu af sér við opnun staðarins í dag.Mynd/Mandi
Það var hátíðlegt á Mandi í dag þegar staðurinn opnaði á ný og voru dyr staðarins skreyttar með blöðrum.Mynd/Mandi

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×