Erlent

Hætta útsendingu sjónvarpsþátta vegna ásakana frá fyrrverandi kærustu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Dykstra og Hardwick voru par í þrjú ár, frá árinu 2011 fram til ársins 2014.
Dykstra og Hardwick voru par í þrjú ár, frá árinu 2011 fram til ársins 2014. Vísir/Getty

Sjónvarpsstöðin AMC hefur gert tímabundið hlé á útsendingum spjallþátta með grínistanum og þáttastjórnandanum Chris Hardwick eftir að fyrrverandi kærasta hans, leikkonan Chloe Dykstra, sakaði hann um að hafa beitt sig andlegu og kynferðislegu ofbeldi.

Ásakanir Dykstra birtust á vefmiðlinum Medium síðastliðinn fimmtudag. Hún nafngreinir Hardwick raunar ekki í pistli sínum en samt sem áður þótti augljóst um hvern er rætt: fyrrverandi kærasta til þriggja ára sem er næstum 20 árum eldri en hún. Aðeins einn kom til greina.

Dykstra bar Hardwick þungum sökum og sagði hann hafa bannað sér að eiga karlkyns vini auk þess sem hún hafi „leyft honum að beita sig kynferðisofbeldi.“ Hardwick þvertók fyrir ásakanirnar í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér vegna málsins.

Í kjölfar ásakananna á hendur Hardwick hefur fyrirtækið Nerdist, hvar Hardwick var einn stofnenda, afmáð nafn hans af vefsíðu sinni. Í yfirlýsingu frá fyrirtækinu segir jafnframt að Hardwick hafi ekkert verið viðriðinn starfsemi Nerdist síðan árið 2015.

Hardwick hefur helst gert sér það til frægðar að stýra hlaðvarpsþáttum um svokallaða „nördamenningu“ auk umræðuþátta á bandarísku sjónvarpsstöðinni ACM. Hinir síðarnefndu snerust allir um vinsælar þáttaráðir sem sýndar voru á stöðinni, þ.á.m. hinar vinsælu seríur Walking Dead og Breaking Bad.

Þá mun stöðin hætta útsendingum á spjallþætti Hardwick, sem ber heitið Talking with Chris Hardwick, þangað til ásakanir á hendur honum hafa verið rannsakaðar til hlítar. Pallborðsumræðum á vegum stöðvarinnar og BBC America, sem Hardwick átti að stýra á myndasöguráðstefnunni Comic Con í júlí, hefur jafnframt verið aflýst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×