Engar eignir fundust í þrotabúi AN Holding, félags í eigu Pennans, sem tekið var til gjaldþrotaskipta í febrúar. Fram kemur í Lögbirtingarblaðinu í dag að kröfur í þrotabúið hafi numið tæplega 3,2 milljörðum króna.
AN Holding tengdist fjárfestingum Pennans á erlendri grundu á árunum fyrir og í kringum hrun. Félagið var stofnað árið 2006 en það ár festu eigendur Pennans kaup á 73 prósenta hlut í lettneska rekstrarvörufyrirtækinu AN Office (Aigas Nams).
Í frétt Vísis frá 2006, sem unnin var upp úr tilkynningu frá Pennanum, sagði að AN Office væri þriðja stærsta rekstrarfyrirtækið á Eystrarsaltssvæðinu með 1,5 milljarða króna veltu árið 2005.
Kristinn Vilbergsson, þáverandi forstjóri Pennans, sagði kaupin góðan byrjunarreit fyrir Pennann til að sækja inn á nýja markaði.
Í framhaldinu sótti Penninn mjög á Eystrarsaltsmarkað og Norðurlöndin. Penninn keypti finnska fyrirtækið Tamore sem sérhæfði sig í sölu og dreifingu á skrifstofuvörum en ársveltan á þeim tíma nam tveimur milljörðum hjá finnska fyrirtækinu. Þá keypti Penninn lettneska kaffiframleiðandann Melna Kafija í samstarfi við Te&kaffi sama ár og í framhaldinu allt hlutafé í rekstrarvörukeðjunni Daily Service sem var stórt í Eistlandi, Lettlandi og Litháen.
Fram kemur í frétt Mbl.is að í ársbyrjun 2009 hafi 2500 manns starfað hjá fyrirtækinu í sjö löndum. Reksturinn var þá orðinn erfiður og tók Nýi Kaupþing banki yfir rekstur Pennans af þeim sökum. Skilanefnd Sparisjóðabankans tók félagið AN Holding yfir árið 2016. Var það úrskurðað gjaldþrota í febrúar og nemur gjaldþrotið sem fyrr segir rúmum þremur milljörðum króna.

