Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar, segir að meirihlutaviðræður gangi vel og að hann sé enn bjartsýnn á að Samfylking, Viðreisn, Vinstri græn og Píratar nái saman um myndun nýs meirihluta í Reykjavíkurborg.
Flokkarnir hittust í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti klukkan níu í morgun og unnu fram að borgarstjórnarfundi sem hófst um tvöleytið. Flokkarnir ætla síðan að hittast aftur á morgun í FB klukkan níu og halda viðræðunum áfram.
Eruði farin að sjá til lands í viðræðunum?
„Jájá, við höfum verið bjartsýn alveg frá upphafi og það er góður andi í þessu; skemmtilegt og mikið hlegið,“ segir Dagur glaður í bragði en enginn tímafrestur hafi verið gefinn í þessum efnum því flokkarnir leitist við að vanda til verka.
„Við erum bara að fara yfir málaflokkana, hvern á fætur öðrum.“
