Elon Musk, stofnandi og forstjóri rafbílaframleiðandans Tesla, stóð af sér tillögu um að fella hann sem stjórnarformann fyrirtækisins á ársfundi þess í gær. Fjárfestar hafa haft áhyggjur af því að Tesla hafi ekki náð að hraða framleiðslu sinni.
Tillaga eins hluthafa í Tesla um að Musk gegndi ekki lengur stöðu stjórnarformanns var felld á fundinum. Breska ríkisútvarpið BBC segir að tillagan hafi verið alvarlegasta atlagan að stjórn Musk á Tesla fram að þessu. Musk á um fimmtung hlutafjár í fyrirtækinu.
Tesla tapaði 710 milljónum dollara á fyrsta ársfjórðungi, tvöfalt meira en á sama tíma í fyrra. Hlutafjárverð í fyrirtækinu hefur einnig verið stopult. Musk hjálpaði ekki til með því að neita að svara spurningum greinenda um fjármál fyrirtækisins í síðasta mánuði.
Musk sagði á fundinum í gær að það væri „nokkuð líklegt“ að Tesla næði markmiði sínu um að framleiða fimm þúsund Model 3-bíla á viku fyrir lok þessa mánaðar. Verksmiðja fyrirtækisins framleiddi nú um 3.500 slíka bíla á viku.
Keflavík
Grindavík