Erlent

Vladímír Pútín forspár

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Vladímír Pútín segist hafa haft rétt fyrir sér.
Vladímír Pútín segist hafa haft rétt fyrir sér. Vísir/AFP
Vladímír Pútín Rússlandsforseti sagðist í gær hafa varað Evrópu, Kanada og Mexíkó við því að Bandaríkin myndu ná sér niðri á þeim líkt og þau gera núna með nýjum viðskiptatollum. Ummælin lét Pútín falla í árlegum símatíma með rússnesku þjóðinni sem sýnt var frá í sjónvarpi.

„Árið 2007 sagði ég í München að Bandaríkin væru að útvíkka lögsögu sína út fyrir landamæri sín og sagði það óásættanlegt. Þetta er að gerast núna, ekki bara í okkar garð heldur bitnar þetta á vinum okkar í Evrópu og víðar,“ sagði Pútín og líkti tollunum við þær viðskiptaþvinganir sem Bandaríkin hafa sett á Rússa.

Rússinn var jafnframt spurður um möguleikann á þriðju heimsstyrjöldinni, sem hann sagði að myndi marka endalok mannlegrar siðmenningar, yrði hún háð. „Hættan á sameiginlegri gereyðingu hefur alltaf haldið aftur af stórveldum heimsins og knúið þau til að virða hvert annað. Úrsagnir Bandaríkjamanna úr samningum, til að mynda um eldflaugakerfi, eru tilraun til að binda enda á það jafnvægi sem hefur ríkt,“ sagði Pútín í svari sínu við spurningunni.

Þá sagði Pútín að þótt ekki stefndi í fleiri meiri háttar hernaðaraðgerðir Rússa í Sýrlandi væri ekki á dagskrá að draga úr viðveru Rússa þar í landi í bili. Ekki væri þó stefnt að því að hafa þar varanlega viðveru. 




Tengdar fréttir

Segja þvinganirnar glæp

Viðskiptaþvinganir sem Bandaríkin innleiddu gegn Venesúelamönnum í kjölfar forsetakosninga helgarinnar eru "glæpur gegn mannkyninu“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×