Erlent

Dregur úr væntingum fyrir fundinn með Kim

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/AP
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, dró í dag úr væntingum um skjótan árangur varðandi viðræður Bandaríkjanna og Norður-Kóreu. viðræðum við Norður-Kóreu um kjarnorkuvopna- og eldflaugaáætlun einræðisríkisins. Honum berst á morgun bréf frá Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, sem gefur til kynna að mögulega verður af fundi þeirra tveggja í Singapúr þann 12. júní.

Í samtali við blaðamenn Reuters um borð í flugvél forsetans í dag sagðist Trump vonast til þess að af fundinum yrði og sömuleiðis að einn fundur yrði nóg til að fá Norður-Kóreumenn til að losa sig við kjarnorkuvopn sín. Hann sagði það þó ekki líklegt. Mögulega þyrfti tvo eða þrjá fundi. Hins vegar myndi afvopnun einræðisríkisins fara fram á endanum.

Slík afvopnum myndi að öllum líkindum fela í sér að viðskiptaþvinganir og refsiaðgerðir gagnvart Norður-Kóreu yrðu felldar niður.

Einn valdamesti maður Norður-Kóreu, hershöfðinginn Kim Yong-chol er staddur í Bandaríkjunum og mun hann færa Trump áðurnefnt bréf í dag.

Embættismenn beggja ríkja hafa á undanförnum dögum unnið hörðum höndum að því að skipuleggja fundinn, eftir að Trump tilkynnti í síðustu viku að hann væri hættur við. Hann tók þó fram að Kim gæti hringt í hann eða sent honum bréf ef hann vildi funda.

Trump og Kim hafa á undanförnu ári skipst á móðgunum og hefur Kim meðal annars kallað Trump geðveikan. Trump svaraði þá á þann veg að Kim væri lítill og feitur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×