Greinendur ráðgjafarfyrirtækisins Capacent hafa hækkað verðmat sitt á Högum um tólf prósent og telja hlutabréf verslanarisans undirverðlögð á markaði um 26 prósent.
Í nýju verðmati Capacent, sem Fréttablaðið hefur undir höndum, er gengi bréfa Haga metið á 56,2 krónur á hlut en til samanburðar stóð gengi félagsins í 44,6 krónum á hlut við lokun markaða í gær. Bent er á að síðasta rekstrarár, sem lauk í febrúar, hafi aðallega einkennst af endurskipulagningu. Í kjölfar þeirrar vinnu megi búast við samdrætti í kostnaði og að kostnaður endurspegli meira tekjuþróun.
Gera sérfræðingarnir ráð fyrir að rekstrarhagnaður Haga hækki hratt. Hann verði 3,8 milljarðar króna á yfirstandandi rekstrarári samanborið við 3,0 milljarða á síðasta rekstrarári. Þess má þó geta að rekstrarhagnaðurinn var 5,1 milljarður á rekstrarárinu 2016 til 2017.
Capacent telur óvarlegt á þessari stundu að leggja mat á virði sameinaðs félags Haga og Olís, enda liggi fyrir að skilyrði samrunans verði íþyngjandi ef af honum verði. Sameiningin gæti þó aukið rekstrarhagnað og framlegð Haga um 40 til 50 prósent.

