Gengi hlutabréfa í Heimavöllum var 1,24 krónur á hlut í lok fyrsta viðskiptadags með bréfin í Kauphöll Íslands í gær og er það tæplega 11 prósenta lækkun frá meðalgengi í hlutafjárútboðinu fyrr í mánuðinum sem var 1,39 krónur á hlut.
196 milljóna króna velta var með hlutabréf í íbúðaleigufélaginu í gær. Fyrstu viðskipti dagsins voru á genginu 1,39 krónur á hlut en gengið fór hins vegar lækkandi eftir því sem leið á daginn.
Að loknum fyrsta viðskiptadegi er félagið Stálskip, í eigu hjónanna Guðrúnar Lárusdóttur og Ágústs Sigurðssonar, stærsti hluthafi Heimavalla með um 8,6 prósenta hlut. Félögin Snæból, í eigu hjónanna Steinunnar Jónsdóttur og Finns Reyrs Stefánssonar, og Gani, í eigu Tómasar Kristjánssonar, fara með 7,5 prósenta hlut hvort.
Þrír lífeyrissjóðir, Birta, Lífsverk og Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda, eru í hópi tuttugu stærstu hluthafa félagsins.

