Myndband af björguninni hefur vakið mikla athygli en á því má sjá hvernig hinn 22 ára gamli Gassama klifrar upp fjórar hæðir til þess að koma dreng til bjargar sem hékk fram af svölum í París á laugardaginn.

Kom hann til Frakklands frá Malí fyrir nokkrum mánuðum og sagðist vilja byggja sér nýtt líf þar.
Hefur Gassama verið nefndur „köngulóarmaðurinn“ í fjölmiðlum sökum þess hversu fljótur hann var að klifra upp húsið en á einungis nokkrum sekúndum tókst honum að komast til drengsins. Maður á svölunum við hlið drengsins hafði þó náð taki á honum og kom í veg fyrir að hann félli niður.