Enski boltinn

Reyna að bjarga HM-draumi Mohamed Salah á Spáni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah meiddist illa á öxl.
Mohamed Salah meiddist illa á öxl. Vísir/Getty
Egyptinn Mohamed Salah er í kapphlaupi við tímann eftir að hafa meiðst illa á öxl í úrslitaleik Meistaradeildarinnar um síðustu helgi. Læknar Liverpool gera allt til að hjálpa hoonum að ná HM.

Mohamed Salah spilaði aðeins tæpan hálftíma á móti Real Madrid og yfirgaf völlinn grátandi. Hann grét ekki aðeins að missa af úrslitaleiknum í Meistaradeildinni heldur gerði hann sér vel grein fyrir því að HM í Rússlandi var í hættu.

Salah er hinsvegar ekki búinn að gefa upp vonina og var kominn á fullt í endurhæfingu aðeins sólarhring eftir að Sergio Ramos snéri hann niður.

Þetta er ekki aðeins fyrsta heimsmeistarakeppni Mohamed Salah heldur fyrsta HM hjá egypska landsliðinu frá því á HM á Ítalíu 1990. Salah sjálfur fæddist tveimur árum síðar eða í júní 1992.





Mohamed Salah flaug til Spánar með læknaliði Liverpool og þar á að reyna að bjarga HM-draumi hans. Egyptar mæta Úrúgvæ í fyrsta leik sínum á HM sem fer fram 15. júní sem er einnig afmælisdagur Mohamed Salah.

Það verður hinsvegar að teljast ólíklegt að hann fái Úrúgvæ-leikinn í afmælisgjöf og líklegast er að Salah missi af tveimur fyrstu leikjum Egyptalands á mótinu. Næsti leikur er aðeins fjórum dögum síðar en sá síðasti er á móti Sádí Arabíu 25. júní.

Það er almennt talið að það taki menn þrjár vikur að koma til baka eftir svona meiðsli og leikurinn á móti Úrúgvæ kemur aðeins tuttugu dögum eftir kvöldið örlagaríka í Kiev.

Mohamed Salah skoraði 44 mörk í öllum keppnum á tímabilinu og tryggði sér gullskóinn í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×