Innlent

Væta og jafnvel næturfrost

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Sumarið lætur aðeins bíða eftir sér.
Sumarið lætur aðeins bíða eftir sér. VÍSIR/EYÞÓR
Austlægar áttir verða ríkjandi yfir Íslandi næstu daga. Þeim munu fylgja rigning í dag sem einkum verður bundin við sunnan- og austanvert landið. Búast má því að rigningin verði orðin nokkuð bundin við suðausturhornið þegar líða fer á kvöldið.

Hitinn verður víða 8 til 12 stig að deginum en þó verður eitthvað svalara norðvestantil, einkum á norðanverðum Vestfjörðum. Ef léttir til og vindur verður mjög hægur gæti náð að frysta að næturlagi.

Að sögn Veðurstofunnar eru svo líkur á skúrum sunnan- og suðvestanlands á morgun. Áfram gæti verið blautt austanlands. Annars staðar á landinu ætti þó að haldast nokkuð þurrt.

Það er svo útlit fyrir að áfram verði þurrt á Norðurlandi á sunnudag en að búast megi við einnhverri vætu af og til syðra.



Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag:

Austlæg eða breytileg átt 3-10 m/s. Dálítil rigning SA-til en annars skýjað með köflum og úrkomulítið. Hiti 6 til 14 stig, svalast á Vestfjörðum. 

Á sunnudag:

Austlæg eða breytileg átt 3-8 m/s, skýjað á köflum og víða þurrt. Hiti 8 til 14 stig. 

Á mánudag:

Austlæg eða breytileg átt 3-10 m/s. Rigning á köflum um landið A-vert, en annars þurrt. Hiti breytist lítið. 

Á þriðjudag:

Austlæg átt, 5-10. Rigning með köflum sunnantil á landinu en bjartviðri fyrir norðan. Hiti 6 til 13 stig. 

Á miðvikudag og fimmtudag:

Austlæg eða breytileg átt og víða dálítil væta. Heldur svalara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×